*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 29. desember 2019 21:55

Andri Már stofnar Aventura

Andri Már Ingólfsson, stofnandi Primera, vinnur að því að koma á fót nýrri ferðaskrifstofu, Aventura Holidays.

Ritstjórn
Andri Már Ingólfsson, stofnandi Primera.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Andri Már Ingólfsson, stofnandi Primera Air, vinnur að því að koma á fót ferðaskrifstofunni Aventura Holidays. Túristi greindi fyrst frá málinu.

Andri er skráður stjórnarformaður félagsins Aventuraholidays ehf. sem auglýst hefur eftir sölustjóra og sölufulltrúa á vefnum starfatorginu Alfreð.is. Andri Már er einnig eigandi lénsins aventura.is

Á Alfreð segir að Aventura sé ný íslensk ferðaskrifstofa sem muni hefja rekstur í janúar. Bjóða eigi Íslendingum spennandi ferðaframboð með því að nýta sér nýjustu tækni í þróun bókunarkerfa til að finna hagkvæmustu ferðir fyrir viðskiptavini sína.

„Aventura leitar að starfsfólki til að vinna með reynsluboltum úr íslenskri ferðaþjónustu, til að byggja upp kraftmikið og leiðandi fyrirtæki, bjóða Íslendingum framúrskarandi þjónustu og bestu kjör sem hægt er að finna á íslenskum ferðamarkaði," segir jafnframt í atvinnuauglýsingunni.

Andri Már stofnaði og átti Primera Air þar til flugfélagið fór í þrot haustið 2018. Í kjölfarið voru ferðaskrifstofur Primera samstæðunnar færðar í nýtt félag, Travelco. Arion banki tók yfir Travelco í sumar vegna vanskila félagsins. Bankinn vinnur nú að því að selja Travelco. Skömmu fyrir jól var greint frá því að Arion banki hefði selt fyrsta hluta Travelco, ferðaskrifstofuna Terra Nova til Nordic Vistor, með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins.