Apple hefur ákveðið að hætta sölu á vörum sínum í Rússlandi í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu. Þetta kemur fram í grein á CNN , en tæknirisinn tilkynnti um áform sín í gær. Í tilkynningunni segist Apple hafa miklar áhyggjur af stöðunni.

Tæknirisinn hefur einnig takmarkað aðgengi fólks í Rússlandi að allri stafrænni þjónustu félagsins, og má þar nefna greiðslukerfið Apple Pay. Apple hefur jafnframt takmarkað aðgengi fólks utan Rússlands að fjölmiðlaforritum í eigu rússneska ríkisins. Þar má nefna fjölmiðla eins og RT News og Sputnik News, sem fólk utan Rússlands getur nú ekki lengur halað niður á App Store.

Mikill þrýstingur hefur verið á tæknirisana Apple, Facebook, Youtube og Twitter að beita sér gegn áróðri til stuðnings innrásar Rússa.

Mykhailo Fedorov, ráðherra í ríkisstjórn Úkraínu, tísti á Twitter í gær að Apple ætti að fara alla leið og útiloka aðgengi að App Store í Rússlandi.