Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq Minerals, segir fé­lagið vel fjár­magnað og að fram­kvæmda­á­ætlun miði nú að því að auka vinnslu­getu námunnar í Nalunaq í 300 tonn á dag eftir hluta­fjár­aukningu í febrúar.

Málm­leitar­fyrir­tækið sótti 44 milljónir punda eða um 7,6 milljarða ís­lenskra króna í hluta­fjár­út­boði í síðasta mánuði. Nýju hlutirnir námu um 19% af öllu út­gefnu hluta­fé fé­lagsins.

Sam­kvæmt árs­upp­gjöri var veltu­fé frá rekstri í gull­starf­semi fé­lagsins 37,6 milljónir dala sem sam­svarar rúmum 5 milljörðum króna. Heildar­greiðslu­geta sam­stæðunnar var 78,2 milljónir dala í árs­lok sem sam­svarar 10,7 milljörðum króna.

„Við höfum verið að glíma við marg­vís­legar seinkanir vegna lokunar siglinga­leiða í lok síðasta árs og mikillar kulda­tíðar í Nalunaq í árs­byrjun 2024. Hins vegar horfir þetta allt til betri vegar núna og við erum að ná góðum af­köstum við byggingu námunnar sem og vinnslu,” segir Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq Minerals, í upp­gjörinu.

Fé­lagið telur horfur góðar fyrir árið en um 80% af öllum samningum fyrir vinnslu­stöðina var lokið á fjórða árs­fjórðungi 2023. Þá hefur fé­lagið stækkað vinnu­búðirnar á svæðinu og bætt við 60 rúmum.

Unnið er að því að koma vinnslu­stöðinni í gang en í lok árs var um 16% af þeirri vinnu lokið, sam­kvæmt upp­gjöri.

„Það verður skýrara með hverjum deginum hversu miklu máli Græn­land skiptir fyrir Vestur­lönd til að tryggja málma sem við þurfum til dag­legra nota. Það var ekki síst undir­strikað með undir­ritun tveggja sam­komu­laga Evrópu­sam­bandsins við heima­stjórnina í Græn­landi en Evrópu­sam­bandið stefnir enn fremur að opnun ræðis­skrif­stofu í Nuuk.

2024 verður ár mikilla um­breytinga fyrir Amaroq. Náma fé­lagsins í Nalunaq kemur nú inn í tekju­flæðið og á sama tíma erum við að auka þungann í rann­sóknum á flestum okkar leitar­svæðum sem inni­halda gull sem og mikil­væga málma.”

Töpuðu um tveimur milljörðum

Hand­bært fé Amaroq í lok árs var 21 milljón banda­ríkja­dala sem sam­svarar um 2,8 milljörðum á gengi dagsins. Mun það vera meira en helmingi minna en hand­bært fé fé­lagsins í árs­lok 2022 þegar fé­lagið var með 53 milljónir dala á hendi. Fé­lagið sótti sér þó auka fjár­magn í febrúar síðast­liðnum.

Amaroq tapaði rúmum 14 milljónum dala í fyrra sem sam­svarar um 1,9 milljörðum króna á gengi dagsins.