*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 25. júní 2020 06:25

Arðgreiðsluvenja stenst ekki lög

Nýfallinn dómur Hæstaréttar hefur orðið til þess að óvissa ríkir um hvað telst til frjálsra sjóða.

Jóhann Óli Eiðsson
Í málskotsbeiðni ríkisins til Hæstaréttar boðaði Skatturinn endurupptöku mála allt að sex tekjuár aftur í tímann félli dómur ríkinu í hag.
Haraldur Guðjónsson

Sérfræðingar í skattarétti og reikningsskilum klóra sér í kollinum eftir dóm Hæstaréttar í máli International Seafood Holding (ISH) gegn íslenska ríkinu sem féll fyrir helgi. Dómurinn felur í sér að áralöng venja um útgreiðslu arðs stenst ekki lög.

ISH er eignarhaldsfélag, skráð í Lúxemborg, en starfsemi þess felst aðallega í utanumhaldi á eignarhlut í Iceland Seafood International ehf. (ISI). Það félag var síðan móðurfélag átta félaga víða um lönd. Árið 2013 fékk ISH greiddan arð frá ISI, á grundvelli afkomu ársins 2011, en frá þeirri upphæð var dreginn afdráttarskattur til staðgreiðslu. Síðar fór ISH þess á leit að umrædd staðgreiðsla yrði endurgreidd á grundvelli tvísköttunarsamnings.

Þeirri beiðni hafnaði Skatturinn, þá Ríkisskattstjóri, hins vegar á þeim grunni að ekki hefði verið um lögmæta úthlutun arðs að ræða og skilyrði fyrir endurgreiðslunni því ekki uppfyllt. Í héraði var úrskurður Skattsins staðfestur en þeim dómi snúið við í Landsrétti.

Við fyrstu sýn lætur málið ekki mikið yfir sér en við nánari skoðun vakna ýmsar spurningar. Umrædd ár hafði ISI gert upp samkvæmt svokallaðri hlutdeildaraðferð við uppgjör sín. Samkvæmt ársreikningalögum ber móðurfélagi meðal annars að færa eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum til eignar í samræmi við hlutdeild sína í þeim. Við þann gerning skal taka tillit til rekstrarárangurs og annarra breytinga á eigin fé félaganna.

Áratugalöng venja

Um árabil tíðkaðist það að móðurfélag færði hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga inn í rekstrarreikning, hlutdeildartekjur við hagnað og hlutdeildartap við tap. Sú færsla hafði síðan áhrif á óráðstafað eigið fé, sem er sú fjárhæð sem heimilt er að úthluta til hluthafa við greiðslu arðs. Engin eiginleg færsla fjármuna á sér stað.

„Er einungis um að ræða bókhaldslega færslu á hagnaðarhlutdeild félags í öðrum sjálfstæðum lögaðilum eftir [lögum um ársreikninga]. Þá var hvorki innan vébanda dótturfélaga ISI, sem sjálfstæðra lögaðila, tekin ákvörðun um úthlutun arðs úr þeim, né var um að ræða yfirfærðan hagnað frá fyrri árum,“ segir í dómi Hæstaréttar. Því hafi ekki myndast frjáls sjóður í rekstri ISI sem heimilt var að úthluta arði úr, arðgreiðslan þar með ólögmæt og skilyrði fyrir endurgreiðslu skattsins óuppfyllt.

„Niðurstaða Hæstaréttar kom umbjóðanda okkar á óvart og er honum eðlilega mikil vonbrigði,“ segir Birgir Már Björnsson, lögmaður ISH í Lands- og Hæstarétti.

„Meginregla skattaréttar er enda sú að skýra beri vafa um túlkun skattlagningarheimilda gjaldanda í hag líkt og Landsréttur hafði áður gert. Í dómi Hæstaréttar virðist hins vegar lögð til grundvallar ný og heldur þröng lögskýring við túlkun hlutaðeigandi skattalagaákvæða, sem umbjóðandi okkar átti alls ekki von á,“ segir Birgir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.