Ari Trausti Guðmundsson, sem bauð sig fram til embættis forseta Íslands, þáði styrk upp á 180.000 krónur frá félaginu Vesturkot ehf. sem er í eigu Finns Ingólfssonar. Það var stærsta einstaka framlagið af 37 framlögum til kosningasjóðs Ara Trausta. Framlög lögaðila voru samtals 785 þúsund krónur, framlög 37 einstaklinga námu 516.500 krónum en Ari Trausti lagði sjálfur fram 487.668 krónur. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag.

Ari Trausti er sá eini af þeim sem buðu sig fram sem hefur skilað uppgjöri til Ríkisendurskoðunar vegna kosninganna. Frambjóðendum til embættis forseta Íslands ber að skila yfirlýsingu og eftir atvikum uppgjöri til Ríkisendurskoðunar fyrir 30. september 2012.