*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 30. mars 2015 09:31

Arion banki seldi í Reitum fyrir 6,4 milljarða

Vegið meðalgengi hluta í Reitum nemur 63,875 krónum á hlut miðað við niðurstöður hlutafjárútboðs.

Ritstjórn
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Haraldur Guðjónsson

Almennu útboði Arion banka á hlutabréfum í Reitum fasteignafélagi hf. lauk síðastliðinn föstudag, þar sem um 3.600 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 25,5 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reitum.

Bankinn bauð til sölu 100 milljónir hluta í félaginu sem jafngilda 13,25% hlutafjár, en nú liggur fyrir að 3,31% hlutafjár verða seld á genginu 63,5 krónur á hlut í tilboðsbók A og 9,94% seld á genginu 64,0 í tilboðsbók B. Heildarsöluandvirði útboðsins nemur því tæplega 6,4 milljörðum króna og vegið meðalgengi 63,875 krónur á hlut. Markaðsvirði alls hlutafjár í Reitum er rúmlega 48 milljarðar króna þegar miðað er við niðurstöðu útboðsins.

„Skráning Reita á markað er sú fimmta sem Arion banki hefur umsjón með. Okkur finnst gleðilegt að hafa átt forgöngu um að byggja upp íslenskan hlutabréfamarkað á undanförnum árum og um leið gefið fjárfestum tækifæri til að eignast hluti í fyrirtækjum sem eiga það sammerkt að vera meðal burðarstólpa íslensks atvinnulífs,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.

„Ég býð nýja hluthafa velkomna og þakka það traust sem þeir sýna okkur með þátttöku í útboðinu. Við endurfjármögnun félagsins í lok síðasta árs keypti hópur lífeyrissjóða stóran hlut í félaginu og það er ánægjulegt að sjá nokkra þeirra bæta frekar við eignarhlut sinn nú í útboðinu en í þeim hópi eru einmitt þeir tveir aðilar sem eiga stærstu einstöku úthlutanir í útboðinu eða um 2% í félaginu hvor um sig,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.