Ekki er annað að sjá en að inngrip Seðlabankans og samningur við Landsbankann hafi átt þátt í skarpri styrkingu krónunnar undanfarna daga. Hugsanlegt er þó að tilfallandi innflæði gjaldeyris og minna útflæði hafi hjálpað til, að mati greiningardeilda Arion banka. Deildin bætir hins vegar við að einhver tími þurfi að líða þar til hægt verður að fullyrða að skynsamlega hafi verið að inngripunum staðið.

Greiningardeildin fjallar um gengisstyrkingu krónunnar frá því Seðlabankinn tók að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði og samið var við Landsbankann í Markaðspunktum sínum í dag. Frá 20. febrúar síðastliðnum hefur gengi krónunnar styrkst um 4,8% gagnvart evru í viðskiptum fyrir a.m.k. hátt í 10 ma.kr. og lítið eitt minna gagnvart viðskiptaveginni körfu gjaldmiðla. Krónan hefur ekki styrkst jafnmikið á fimm viðskiptadögum undanfarið ár.

Tilefni til bjartsýni

Greiningardeildin segir m.a.:

„Við höfum lagt mikla áherslu á að erlendar skuldir Seðlabankans eru meiri en erlendar eignir hans, og því þurfi að fara afar gætilega við inngrip sem krefjast þess að gengið sé á gjaldeyrisforða bankans. Þannig er lykilatriði að bankinn geti keypt til baka þann gjaldeyri sem hann ver til inngripa þegar krónan styrkist. Hvort sú verður raunin á enn eftir að koma í ljós, en fyrr verður ekki hægt að fullyrða neitt um að inngripin hafi heppnast. Styrkingin síðustu daga gefur þó meira tilefni til bjartsýni en ella.“

Og hvað sé framundan segir greiningardeildin:

„Þar sem ekkert er vitað um hversu langt fyrirtæki og sveitarfélög eru komin í gjaldeyrissöfnun vegna nálægra gjalddaga erlendra lána er erfitt að segja til um hvort styrkingin nú er tímabundin eða varanleg. Ekki er hægt að útiloka að krónan veikist aftur, en á árunum 2010-2012 veiktist gengið að meðaltali allt fram í mars-apríl og tók þá að styrkjast. Ef um varanlega styrkingu er að ræða er hún því snemma á ferðinni í ár.“