*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 15. október 2019 16:58

„Arion er farinn að minna á Sambandið“

„Það hafa verið endalaus vonbrigði frá því þeir fóru á markað,“ segir greinandi hjá Capacent um rekstur Arion banka.

Ingvar Haraldsson
Snorri Jakobsson er forstöðumaður greiningar hjá Capacent.

„Það er augljóst að útlánastefna bankans var ekki nógu góð,“ segir Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningar hjá Capacent um afkomuviðvörun sem Arion banki sendi frá sér í gær. Bankinn greindi frá þriggja milljarða tapi vegna kísilvers United Silicon, ferðaskrifstofusamstæðunni TravelCo og kortafyrirtækinu Valitor. Fyrirtækin þrjú eru öll til sölu. Snorri bendir á að útlánatöp Arion banka hafi verið meiri en hinna bankanna.

Hvað er að gerast hjá Valitor?

„Þau þurfa að svara betur hvað er að gerast hjá Valitor,“ segir Snorri. „Tapið hjá Valitor er 2/3 því sem þeir ætla að hagnast á uppsögnum í haust“, segir Snorri. Arion banki hugðist spara sér 1,3 milljarða króna á ársgrundvelli með því að segja upp hundrað manns í lok september. Rekstur Valitor hefur gengið erfiðlega. Fyrirtækið tapaði 2,8 milljörðum króna á fyrri hluta þessa árs og 1,9 milljarði á árinu 2018 en skilaði 940 milljón króna hagnaði árið 2017.

Endalaus vonbrigði

Arion banki hefur sent frá sér þrjár afkomuviðvaranir á rúmlega ári. Bankinn var aðallánveitandi flugfélaganna Primera Air og Wow air sem urðu gjaldþrota síðasta vetur. Þá var Valitor dæmt í apríl til að greiða Suns­hine Press Producti­ons (SSP) og Datacell, rekstrarfélagi Wikileaks, 1,2 milljarða króna í bætur. „Það hafa verið endalaus vonbrigði frá því þeir fóru á markað,“ segir Snorri en Arion banki fór á markað í júní 2018.

Arion banki tók yfir ferðaskrifstofur TravelCo í sumar, áður Primera Travel Group, vegna vanefnda félagsins við bankann eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær. Markmiðið Arion er að selja TravelCo á ný á næstu mánuðum. Bankinn sinnir því rekstri ferðaskrifstofa og reynir að endurreisa kísilver United Silicon til viðbótar við rekstur kortafyrirtækisins Valitor og kjarnareksturs bankans. „Arion banki er farinn að minna á Sambandið,“ segir Snorri.

Sjá einnig: USi, Valitor og TravelCo bíta fast

Hins vegar séu einnig ljósir punktar í rekstrinum „Til lengri tíma eru horfurnar bjartar sé horft til lækkunar bankaskatts og líklega munu uppsagnirnar í haust skila sér í bættri afkomu,“ segir hann.

Hvert áfallið rekið annað

Stór áföll hafa einkennt rekstur Arion banka undanfarin ár. Arion banki gaf út afkomuviðvörun í október í fyrra þar sem fram kom að tap vegna gjaldþrots Primera Air næmi 1,3 til 1,8 milljörðum króna. Þá lýsti Arion banki 2,4 milljarða króna kröfu í þrotabú Wow air.

Kísilver United Silicon fór í greiðslustöðvun í ágúst 2017 eftir stuttan tíma í rekstri. Bankinn var aðallánveitandi verkefnisins og hafði áður afskrifað um fimm milljarða króna vegna kísilversins. Arion banki tók reksturinn yfir og hefur unnið að því að laga verksmiðjuna og koma henni af stað á ný með það að markmiði að hún verði seld. Bankinn afskrifaði nú 1,5 milljarða króna til viðbótar m.a. vegna lágs kísilverðs.