Gengið hefur verið frá kaupum Arion banka á starfsemi SPRON Factoring. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki eftirlitsstofnanna.

Í fréttatilkynningu frá Arion kemur fram að SPRON Factoring er sérhæft félag á sviði kröfufjármögnunar. Samhliða kröfufjármögnuninni fari fram þjónusta tengd áhættustýringu kröfusafna, viðskiptamannabókhaldi og innheimtu. Annar veigamikill þáttur í starfsemi félagsins sé sala á greiðslufallstryggingum í samvinnu við erlend tryggingarfélög sérhæfð á þessu sviði.

Allir starfsmenn SPRON Factoring verða starfsmenn Arion banka og Hrönn Greipsdóttir núverandi framkvæmdastjóri SPRON Factoring mun áfram veita starfseminni forstöðu.

Í fréttatilkynningunni er þetta haft eftir Höskuldir H. Ólafssyni bankastjóra Arion:

„Við leggjum mikið upp úr því að veita viðskiptavinum okkar fjölbreytta fjármálaþjónustu. Með kaupum á SPRON Factoring, sem er sterkt og vel rekið félag, bætir bankinn mikilvægum þætti við þjónustuframboð sitt gagnvart fyrirtækjum sem stunda reikningsviðskipti við önnur fyrirtæki. Með starfsmönnum SPRON Factoring kemur sérþekking á sviði kröfuþjónustu kemur viðskiptavinum Arion banka til góða.“