Arion verðbréfavarsla sérhæfir sig í verðbréfauppgjöri og vörsluþjónustu. Auk þess annast fyrirtækið umsýslu með verðbréfasjóðum, m.a. daglega gengisútreikninga, bókhald, uppgjör, skýrslugerðir til FME og Seðlabanka. Arion verðbréfavarsla sinnir því þeim hluta verðbréfaviðskipta sem hulinn er flestum almennum leikmönnum á markaði.

Þegar verðbréf hafa verið keypt eða seld í gegnum miðlara hjá verðbréfafyrirtæki fer af stað atburðarás hjá Arion sem endar í því að greiðsla berst fyrir viðskiptin og nýr eigandi hefur verið skráður fyrir bréfunum. Síðan er fylgst með öllum aðgerðum, t.d. arðgreiðslum eða öðrum réttindum sem tilheyra verðbréfunum, í gegnum upplýsingaveitur og vörsluaðila hérlendis og erlendis og séð til þess að þær skili sér til rétts eiganda og að skattaleg meðhöndlun sé samkvæmt lögum og reglum á hverjum markaði. Arion var með um síðustu mánaðamót verðbréf að markaðsvirði um 2.000 milljarða í sinni vörslu fyrir hönd viðskiptavina sinna sem eru innlendar og erlendar fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, rekstrarfélög og eignarhaldsfélög.

Breyttur verðbréfamarkaður kallar á samþættingu þjónustuþátta

Arion verðbréfavarsla hefur frá stofnun árið 2002 verið í eigu Arion banka og fyrirrennara hans en nú hefur Landsbankinn skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á nýju hlutafé í félaginu sem send hefur verið til Samkeppniseftirlitsins til samþykktar. Jafnframt hafa bankarnir tveir gert með sér hluthafasamkomulag þar sem stefnt er að því að selja fyrirtækið til fleiri aðila og að sameiginlegur eignarhlutur þeirra verði kominn niður fyrir 50% innan þriggja ára. Að fengnu samþykki Samkeppniseftirlitsins munu sjö starfsmenn Landsbankans flytjast yfir til Arion. Samhliða því verður nafni fyrirtækisins breytt í Verdis.

Guðrún Blöndal, framkvæmdastjóri félagsins, segir viðskiptamódelið sem lagt var upp með við stofnun vera að ganga eftir. „Við stofnuðum Arion verðbréfavörslu að erlendri fyrirmynd þar sem við sáum að fjármálafyrirtæki voru að sameinast um miðlæga vinnslu. Ég held að þetta sé það sem bankarnir gera í framtíðinni, bæði til þess að ná niður kostnaði og eins að þeir sameinist um rekstur þeirra þátta sem í eðli sínu eru ekki samkeppnishæfir. Fjármálastofnanir berjast í framlínunni en ekki í bókhaldi, verðbréfabakvinnslu eða rekstri tölvukerfa. Það sem verðbréfabakvinnslan getur gert er að nýta sér upplýsingatækni til hins ítrasta til að ná hagkvæmni í starfseminni og hámarksöryggi í vinnslu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.