Ríkisstjórnarfundur
Ríkisstjórnarfundur
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
„Það sem skiptir máli er að fyrirtæki á samkeppnismarkaði geri þá einnig vel við sína viðskiptamenn. Það er alveg ljóst að þessi ákvörðun á ekki rætur að rekja til eignarhalds bankans,“ segir Árni Páll Árnason í samtali við Viðskiptablaðið um ákvörðun Landsbankans um að bjóða viðskiptavinum sínum frekari leiðir til lausnar á skuldavanda en nú bjóðast. Aðspurður hvort sama gildi um Íbúðalánasjóð telur Árni Páll eðlilegt að sjóðurinn mæti sínum viðskiptavinum með sama hætti og aðrir á markaði. „Það er erfitt að sjá rökin fyrir ríkisreknum Íbúðalánasjóði ef hann getur ekki gert jafn vel við sína viðskiptamenn og fyrirtæki á samkeppnismarkaði.

Árni Páll segir það skipta máli að bankarnir taki af skynsemi og krafti á skuldaúrvinnslu. „Ef að menn meta það þannig að þeir verji meiri hagsmuni fyrir minni með einhverjum aðgerðum af þessum toga þá er það gert. Það er bankans að taka viðskiptalega ákvörðun í þessum efnum. Ég treysti því að þær byggi á viðskiptalegum forsendum og raunsæu mati bankans á því hvernig hann ver hagsmuni sína sem best.“

Meðal þeirra gagnrýnisradda sem heyrst hafa vegna nýrra aðgerða Landsbankans eru að aðgerðir hans ná til fárra, eða um 60.000 manns samkvæmt tilkynningu Landsbankans. Bankinn sé hinsvegar 80% í ríkiseigu og því væri allt eins réttast að greiða fjárhæðir út í formi arðs, í stað þess að þær renni eingöngu til niðurfellingar skulda viðskiptavina Landsbankans. Aðspurður um þetta ítrekar Árni Páll að aðgerðir bankans eru ekki gerðar af kröfu eigandans og það hljóti að byggja á því mati bankans að með þessu verji hann hagsmuni sína.

„Það er afstaða bankans að þetta sé viðskiptalega skynsamleg ákvörðun og sem slík hlýtur hún að hafa áhrif á aðra á markaði og auka þrýsting á að gera vel við sína viðskiptavini. Við eigum mikið undir því að bankar vinni hratt og mæti fólki af sanngirni til þess að flýta því að nauðsynleg aðlögun eigi sér stað, og til að ráðast í nýjar fjárfestingar og skapa ný atvinnutækifæri,“ segir Árni Páll.