Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að hann vonist til þess að þegar túristinn muni fara að flæða aftur um Laugaveginn og kaupa tuskulunda munum við komast upp með færri búðir til þess að sinna þeirri kaupþörf.

Þetta kemur fram í nýrri færslu Ásgeirs á facebook , en hann hefur verið duglegur á síðustu misserum að tjá sig þar um ýmis mál. Eins og Eftir vinnu Viðskiptablaðsins hefur fjallað um hafa margir þeirra fjallað um nýja bók sem hann hefur skrifað og er gefin út fyrir þessi jól um Jón Arason.

Í færslunni nú ryfjar hann upp kynni sín af Golla ljósmyndara úr námsárunum í MA sem tók af honum ljósmynd á Laugaveginum um helgina þar sem það leit út fyrir að hann væri með lunda á hvorri öxl líkt og Óðinn hafði tvo hrafna sökum lundabúðar að baki honum.

Síðustu misserin hafa fáir ferðamenn komið til landsins vegna sóttvarnaraðgerða og almenns ótta sakir heimsfaraldurs kórónuveirufaraldursins, og hafa því fjölmargar verslanir sem höfðuðu fyrst og fremst til ferðamanna á Laugaveginum lokað .

Þar á meðal stór hluti svokallaðra lundabúða, það er verslana með ferðamannavarning sem oft er merktur lundanum fornfræga sem Ásgeir segir að hér á landi hafi orðið að táknmynd túristaverslunar miðbæjarins en sé erlendis merkisberi fyrir náttúruvernd.

Jafnframt rifjar Ásgeir upp að hann hafi alist upp við Breiðafjörð og stundað þar lundaveiðar, enda fuglinn verið álitinn hversdagsmatur, á sama tíma og kjúklingur var hátíðarmatur. Nú hafi hann meiri áhyggjur af varanlegri fækkun lundans en ferðamanna.

„Lundinn var algengasti fuglinn á Íslandi og var stofninn áætlaður um 2 milljónir para hér áður – en hefur fækkað mikið. Það er tímana tákn að lundinn er nú nær horfinn frá eyjunum við Bjarnarhöfn – og hefur líklega fært sig utar á fjörðinn,“ segir Ásgeir meðal annars í færslu sinni.

„Túristarnir mun birtast aftur – fyrr en varir og flæða um Laugaveg og kaupa tuskulunda. En vonandi komust við upp með færri búðir til þess að sinna þeirri kaupþörf. Það er mun meiri ástæða að óttast varanlega fækkun lundans - en fækkun ferðafólks.“

„Óðinn hafði tvo hrafna á sitt hvorri öxl – en þú hefur tvo lunda“ sagði Golli ljósmyndari við mig þegar ég hitti hann...

Posted by Ásgeir Jónsson on Tuesday, 8 December 2020