Í drögum að ályktun Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál er lagt til að landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykki að fela forystu flokksins að leita samkomulags á Alþingi um að á fyrri hluta næsta kjörtímabils fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Ályktunardrögin eru lögð fram á grunni vinnu Evrópunefndar flokksins.

Í drögunum segir enn fremur: „Landsfundurinn undirstrikar þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir fiskveiðiauðlindinni og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu. Samningurinn sem takast kann á grundvelli aðildarumsóknar öðlist því aðeins gildi að hann verði samþykktur af Alþingi og staðfestur af kjósendum í allsherjaratkvæðagreiðslu."

Í greinargerð sem fylgir ályktunardrögunum segir að í ljósi þess að stjórnarskrá Íslands geri ekki ráð fyrir aðild að alþjóðasamtökum á borð við Evrópusambandið sé rétt að hefja nú þegar undirbúning að breytingum sem geri aðild mögulega verði það niðurstaðan nú eða síðar.

„Þá þarf að setja almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og ákvæði í stjórnarskrá um þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við málið á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu."