*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Innlent 26. september 2020 13:13

Atvinnuhúsnæði lækkað um 21%

Mikið skrifstofurými er í byggingu en vísitala atvinnuhúsnæðis hefur lækkað um fimmtung. 18% fyrirtækjalána eru í vanskilum eða greiðsluhléi.

Alexander Giess
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar.
Haraldur Guðjónsson

Verðvísitala atvinnuhúsnæðis hefur lækkað að raunvirði um ríflega 21% síðustu tólf mánuði en hún náði hámarki á öðrum ársfjórðungi 2019. Vísitalan stóð í stað á milli fyrsta og annars ársfjórðungs 2020. Mikið skrifstofurými er í byggingu í miðborg Reykjavíkur sem gæti leitt til staðbundins offramboðs á næstu misserum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands birti í vikunni.

Fram kemur að „verulegt offramboð er nú til staðar á gistirými á höfuðborgarsvæðinu“. Rúmlega 42 þúsund fermetrar gistirýmis voru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í júlí síðastliðnum, um 16% af því gistirými sem nú þegar er til staðar.

Enn fremur segir að flest bendi til þess að áfram hafi dregið úr umsvifum á byggingamarkaði, þó að ný talning á fjölda íbúða í byggingu liggi ekki fyrir frá síðustu útgáfu ritsins. Hófleg hækkun hafi verið á húsnæðisverði þar sem vaxtalækkun Seðlabankans hafi stutt við markaðinn. Að auki hafi heimilum staðið til boða að frysta vaxtagreiðslur og afborganir en í byrjun júní var um 6,1% fasteignalána til neytenda í greiðsluhléi sem nam 3,3% um miðjan september.

Um 18% í greiðsluhléi eða vanskilum

Bankalán fyrirtækja í greiðsluhléi vegna veirufaraldursins námu 8,6% af heildarútlánum þeirra um miðjan september. Vanskilalán fyrirtækja námu 8,9% í lok júlí en voru 4,8% við lok síðasta árs. Samanlagt eru því ekki greiddar afborganir eða vextir af 17,5% fyrirtækjalána. Þetta er meðal þess sem fram kom í minnisblaði Seðlabanka Íslands.

Tæplega 23% útlána kerfislega mikilvægu bankanna til ferðaþjónustu voru í greiðsluhléi um miðjan september. Hæst fór hlutfallið í 63% í sumar. „Þetta er þó ekki merki um að staðan sé að batna, heldur eingöngu að notkun úrræðisins fer minnkandi,“ sagði Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, á fundi bankans í vikunni. Um miðjan september höfðu ferðaþjónustufyrirtæki fengið 3,8 milljarða króna í stuðnings- og viðbótarlán.

Útlán kerfislega mikilvægu bankanna til sjávarútvegsfyrirtækja námu um 12% af útlánum til þeirra viðskiptavina í ágústlok. Um miðjan september voru um 7,2% lánum sjávarútvegsfyrirtækjanna í greiðsluhléi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.