Skráð atvinnuleysi í janúar 2008 var 1% eða að meðaltali 1.545 manns, sem eru 188 fleiri en í desember sl. eða um 14% aukning.  Atvinnuleysi er um 22% minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,3%. Atvinnuleysi eykst á höfuðborgarsvæðinu um 12% og er 0,7% en 0,6% í desember.  Á landsbyggðinni eykst atvinnuleysi meira eða um 16% og er 1,5% en 1,2% í desember.

Í frétt á vef Vinnumálastofunnar segir að atvinnuleysi karla hafi aukist og er 0,8% en var 0,6% í desember. Atvinnuleysi kvenna eykst minna og mælist   1,2% en var 1,1% í desember. Þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 438 í lok janúar, 465 í lok desember en voru yfir 700 í aprílmánuði á síðasta ári (2007) þegar þeir voru hvað flestir á árinu. Þar voru 274 atvinnulausir í meira en ár í janúar og hefur fjöldi þeirra lítið breyst síðustu mánuði.

Nýskráningar ríkisborgara frá nýjum ríkjum ESB voru 354 í janúar sem er svipað og í desember en er mikil fækkun frá nóvember þegar skráningar voru 847 og í október 923. Útgáfa nýrra atvinnuleyfa til ríkisborgara utan EES er orðin mjög lítil, aðeins voru gefin út 33 ný atvinnuleyfi í janúar og voru að jafnaði gefin út á bilinu 20 til 80 ný atvinnuleyfi á mánuði á árinu 2007.

Vísbendingar um atvinnuástandið í febrúar

Atvinnuástandið breytist yfirleitt lítið milli janúar og febrúar. Í fyrra jókst atvinnuleysið um 3% milli þessara mánaða og var þá 1,3% bæði í janúar og febrúar. Lausum störfum hjá Vinnumálastofnun fækkaði um 4 milli desember og janúar voru 184 í lok janúar. Atvinnulausum í lok janúar fjölgaði frá lokum desember eða um 208, sem er meiri aukning en á sama tíma árið 2007 þegar fjölgaði um 47 milli þessara mánaða. Þegar allt er talið er því líklegt að atvinnuleysið í febrúar 2008 muni aukast og verða á bilinu 0,9%-1,2%.

Skýrsla um atvinnuástand í janúar 2008