Atvinnuleysi á Spáni hækkaði snögglega á fyrstu þremur mánuðum ársins og mælist nú 9,6%. Að sögn BBC er um þriggja ára hámark að ræða, og er atvinnuleysi á Spáni hið annað mesta meðal aðildarlanda Evrópusambandsins. Mesta atvinnuleysið meðal hinna 27 ríkja innan sambandsins er í Slóvakíu.

Atvinnuleysi á síðasta fjórðungi síðasta árs var 8.6%, en talið er að helsti orsakavaldur aukins atvinnuleysis sé samdráttur í byggingageiranum.

Samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar mun hagvöxtur á Spáni þetta árið verða 2,3%. Fyrri spár höfðu gert ráð fyrir 3,1% vexti. Einnig er gert ráð fyrir því að atvinnuleysi geti orðið allt að 10% á næsta ári.