Atvinnuleysi mældist 2,6% af mannafla á þriðja ársfjórðungi 2006 og lækkar úr 4,0% á ársfjórðungnum á undan, segir greiningardeild Kaupþings banka og vitnar í tölur vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar en samkvæmt Vinnumálastofnun var atvinnuleysið á 1,2% á þriðja ársfjórðungi.

?Þótt atvinnuleysi minnki milli ársfjórðunga er það að aukast frá sama ársfjórðungi í fyrra þegar atvinnuleysi mældist aðeins 1,8%. Er þetta annar ársfjórðungurinn í röð sem atvinnuleysi eykst umtalsvert milli ára og virðist viðsnúningur því vera að eiga sér stað eftir stöðugan samdrátt atvinnuleysis allt frá árinu 2003," segir greiningardeildin.

Hún segir að raunar er atvinnuleysi á öðrum og þriðja ársfjórðungi 2006 nánast jafn mikið og á sama tíma árið 2003.

?Þessar tölur benda til þess að ekki sé eins mikil spenna á vinnumarkaði og áður hefur verið haldið fram. Skortur á vinnuafli mun því valda minni þrýstingi á launakostnað en ella sem hlýtur að teljast góð tíðindi fyrir verðbólguhorfur," segir greiningardeildin.