Lækkun Moody´s á lánshæfimati Portúgals hefur aukið líkurnar á því að landið sæki um aðstoð úr neyðarsjóði ESB (EFSF).

Ríkissjóður Portúgal lauk skuldabréfaútboði í gær.  Uppboðsfjárhæðin var 1 milljarður evra, 161 milljarður króna.  Um skammtímaskuldabréf var að ræða og eru þau til eins árs.  Ávöxtunarkrafan í útboðinu í gær var 4,33 en var 4% í sambærilegu tilboði fyrir tveimur vikum.  Krafan var þó mun hærri í desember eða 5,28%.

Á sama tíma boðuðu stjórnvöld en frekari aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum en það virðist ekki hafa aukið trú fjárfesta á skuldabréfunum. Hins vegar jókst pólitískur óstöðugleiki við þessar yfirlýsingar.

Í frétt á vef Financial Times í gærkvöldi segir Antonio Garcia Pascual hagfræðingur hjá Barclays Capital að landið væri á pólitískum krossgötum.  José Sócrates er forsætisráðherra minnihlutastjórnarinnar sem fréttaskýrendur segja viðkvæma.

Sócrates hefur hótað að segja af sér lýsi stjórnarandstaðan ekki yfir stuðningi við aðhaldsaðgerðirnar áður en leiðtogafundur ESB hefst í lok mars.   Sá stuðnigur er ekki í hendi því Pedro Passos Coelho, leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins PSD telur vera of langt gengið með niðurskurðartillögunum.