„Eftir að reglugerðin tekur gildi hér á landi munu matvælafyrirtæki þurfa að breyta merkingum á umbúðum langflestra matvara, meðal annars þannig að upplýsingar um ofnæmis- og óþolsvalda séu með leturgerð sem aðgreinir þá frá öðrum atriðum í innihaldslýsingunni, og allar skyldumerkingar eiga að uppfylla ákveðna staðla,“ segir Jónína Stefánsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, í samtali við Morgunblaðið í morgun.

Ný Evrópureglugerð um merkingar á matvælum tekur gildi hér á landi í lok þessa árs. Mælir reglugerðin fyrir um að merkingar og aðrar upplýsingar á matvælum séu skýrari en áður neytendum til hagsbóta. Í reglugerðinni er áhersla lögð á að upplýsingar um ofnæmis- og óþolsvaldandi innihaldsefni í pökkuðum og ópökkuðum vörum séu skýrar, auk þess sem viðvörunarmerkingar koma á drykkjarvörur sem innihalda tiltekið magn koffeins.

Pétur Blöndal, forstjóri sælgætisgerðarinnar Freyju, telur ljóst að skyndileg breyting án aðlögunartíma á umbúðum geti kostað fyrirtæki nokkrar milljónir þar sem fyrirtæki kaupi almennt umbúðir langt fram í tímann. Sé aðlögunartíminn hæfilegur, til dæmis sex mánuðir eða meira, verði kostnaðurinn ekki eins mikill.