Framkvæmdir vegna Bakkafjöruhafnar eiga að hefjast á þessu ári. Heildarkostnaður við hafnargarða og varnargarða er áætlaður um 2,1 milljarður króna auk vegagerðar.

Er Bakkafjöruhöfn stærsta einstaka verkefni Siglingamálstofnunar frá upphafi og stærsta hafnargerðarverkefni á Íslandi síðan ráðist var í gerð aðal hafnargarða Reykjavíkurhafnar árið 1917.

Ætlunin er að bjóða út í mars gerð grjótgarða fyrir um 1.000 milljónir króna. Hluti af þessu verkefni er gerð varnargarða meðfram markarfljóti austan við hafnarsvæðið til að hindra að áin fari út fyrir núverandi farvegi. Þá þarf að gera sjóvarnargarða út frá ströndinni og dýpka við væntanlega höfn. Gerð farþegaaðstöðu á höfninni og frágangur verður boðinn út 2009.

Fyrsti hluti af þessum framkvæmdum er lagning nýs Bakkafjöruvegar frá þjóðveginum niður að hafnarsvæðinu og vegar að námusvæði, samtals 13 kílómetrar að lengd. Verður vegagerðin boðin út samtímis hafnargerðinni. Gerir Vegagerðin ráð fyrir að leggja um 400 milljónir króna í það verkefni á þessu ári.

Er gerð þessa vegar forsenda þess að hægt verði að keyrt grjóti úr námu við Kattahryggi austan Markarfljóts til að gera varnar- og hafnargarða við höfnina sjálfa. Um veginn þarf að flytja um 500.000 rúmmetra af grjóti vegna hafnargerðarinnar. Líklegt er að gerð verði sérstök bráðabirgðabrú yfir Markarfljót til þessara þungaflutninga.