Bakkavör Group, móðurfélag Bakkavararsamstæðunnar, tapaði tæpum fjórum milljörðum króna á árinu 2009, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Félagið skuldar íslenskum skuldabréfaeigendum rúma 60 milljarða króna vegna útgáfu sem það réðst í á uppgangstímum.

Engar eignir eru inni í Bakkavör Group aðrar en eignarhlutir í Bakkavararsamstæðunni. Þær eignir eru veðsettar öðrum að fullu og því geta kröfuhafar Bakkavarar Group ekki gengið á þær.

Þeir samþykktu því nauðasamning félagsins í mars síðastliðnum. Samkvæmt honum þarf Bakkavör að greiða skuldabréfaeigendunum um 100 milljarða króna fyrir lok júní 2014. Takist það munu bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eignast 25% í félaginu að nýju. Þeir stýra Bakkavör þangað til.