Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur hafið rannsókn á starfssemi fjárfestingalánasjóðanna Fannie Mae og Freddie Mac, fjárfestingabankanum Lehman Brothers og tryggingafélaginu AIG en öll eiga þessi félög það sameiginlegt að hafa komið illa út úr lausafjárkrísunni og verið nálægt gjaldþroti.

Lehman Brothers óskaði eftir greiðslustöðvun en hin þrjú félögin voru þjóðnýtt af bandarískum yfirvöldum á síðustu vikum.

Á fréttavef Reuters kemur fram að FBI mun einnig rannsaka þátt æðstu stjórnenda félaganna.

Þá hefur alríkislögreglan ekki tilgreint hvað sé nákvæmlega verið að rannsaka en von er á tilkynningu frá FBI í dag eða á morgun að sögn Reuters.

Þó vitnar Reuters í frétt CNN af málinu en þar kemur fram að mögulega sé verið að rannsaka hvort félögin eða stjórnendur þeirra hafi leynt upplýsingum um starfssemi þeirra og/eða gefið viljandi út rangar upplýsingar í þeim tilgangi að beita fjárfesta blekkingum.