Standard & Poor's 500-vísitalan náði fjögurra mánaða hámarki sínu í dag, en stjórnvöld í Bandaríkjunum ákváðu að rýmka láns- og fjárfestingaheimildir húsnæðislánveitandans Fannie Mae sem hafði jákvæð áhrif á markaði. Olíuframleiðendur hækkuðu einnig, en olíuverð slær enn öll met og náði tunnan 122 dollurum í dag.

S&P hækkaði um 0,8%, Dow Jones um 0,4% og Nasdaq um 0,8%.

Bréf Fannie Mae hækkuðu um 8,9% í dag, en tilkynnt var að félaginu væri nú heimilt að kaupa fleiri húsnæðislán en það hafði áður haft heimildir til. Félagið hyggst sækja sér 6 milljarða dollara í nýrri fjármögnun. Fannie Mae á eða tryggir fimmta hvert húsnæðislán í Bandaríkjunum.