Helstu hlutabréfavísitölur lækkuðu í Bandaríkjunum í vikunni. Fjármálasérfræðingar segja ástæðuna ráðaleysi bandarískra ráðamanna, sem hafa ekki komið sér saman um aðgerðir til að koma í veg fyrir að bandaríska hagkerfið keyri fram af fjárlagaþverhnípinu (e. fiscal cliff) svokallaða eftir áramótin þegar boðaðar skattahækkanir og samdráttur í útgjöldum hins opinbera taka gildi.

AP-fréttastofan segir að þegar aðeins 20 mínútur voru í að hlutabréfamarkaðir lokuðu vestanhafs í gær hafi gengi helstu hlutabréfa tekið sveig niður á við. Ástæðan fyrir því hafi verið fréttir þess efnis að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, muni ekki leggja fram nýjar tillögum um fjárlög bandaríska ríkisins á fundi sínum með þingmönnum í bráð.