Uppgjörstíð fyrirtækja fyrir annan ársfjórðung í kauphöllum um víða veröld fer senn í hönd. Íslenska uppgjörshrinan fer af stað síðustu viku þessa mánaðar. Í þessari viku munu hins vegar berast uppgjör bandarískra fyrirtækja á borð við General Electric, sem oft er notað sem mælikvarði á hagkerfið í heild, Alcoa og Intel.

Sérfræðingar sem Dow Jones-fréttaveitan ræddi við telja að fjárfestar muni einblína á uppgjör bankanna í ljósi lausafjárkrísu á mörkuðum. Það verði ekki fyrr en fjárfestar viti hvernig þeim málum er hátt sem litið verði til annarra félaga. Komi til jákvæðra frétta frá rekstrarfyrirtækjum, að mati sérfræðinganna, er ólíklegt að hlutabréf muni rjúka upp í verði vegna þess að olíuverð er í hæstu hæðum. En á meðan bankar hafa lítinn hug á að lána hver öðrum, munu hlutabréfamarkaðir halda áfram lækka, segir í fréttinni. Sérfræðingar segja stemningu á hlutabréfamörkuðum lélega og sjá ekkert í spilunum sem muni ráða bót á því.

Fjárfestingabankinn Goldman Sachs lækkaði hagnaðarspá sína á 40 banka í Evrópu síðastliðinn föstudag. Auk þess sagði hann að bankar gætu þurft að hætta við arðgreiðslur í eitt ár og sækja sér aukna fjármuni til að laga efnahagsreikninga sína, að því er fram kemur í frétt í Dow Jones. Þar að auki sagði Svissneska dagblaðið Sonntag frá því á sunnudag að stóru svissnesku bankarnir, UBS og Credit Suisse, gætu þurft að safna 68 milljörðum dollara til þess að mæta kröfum frá eftirlitsaðila.