Viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa aukið umsvif sín verulega á undanförnum mánuðum á íbúðalánamarkaði. Leita þarf aftur til ársins 2007 til að finna jafn miklar lánveitingar til íbúðakaupa hjá bönkunum.

Óverðtryggðum kostum fjölgar

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir að bankinn hafi sett sér það markmið að bjóða upp á fjölbreytta valkosti þegar kemur að íbúðalánum og að einn liður í því hafi verið óverðtryggð lán með hagstæðum vöxtum, sem eru bundnir til fimm ára. „Aðrar lánastofnanir fylgdu í kjölfarið. Þannig hefur óverðtryggðum valkostum á íbúðalánamarkaði fjölgað til mikilla muna frá september,“ segir Höskuldur, sem telur að svipað hlutfall óverðtryggðra lána sé til staðar hjá öðrum bönkum.

„Hins vegar býður Íbúðalánasjóður ekki upp á óverðtryggð íbúðalán og vextir þeirra á verðtryggðum íbúðalánum eru í hærri kantinum miðað við það sem gengur og gerist á markaðnum í dag. Því er e.t.v. ekki skrýtið að markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs þegar kemur að nýjum íbúðalánum hafi dregist saman undanfarið, eða allt frá því við kynntum til leiks raunhæfa óverðtryggða valkosti,“ segir Höskuldur um þróun markaðshlutdeildar Íbúðalánasjóðs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.