Henrik Normann, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans, segir að mjög auðvelt sé að réttlæta fyrir íbúum Danmerkur og Svíþjóðar, svo dæmi séu tekin, af hverju smærri ríkin fái hærra hlutfall lána en nemur eign þeirra í fjárfestingarbankanum. „Í fyrsta lagi get ég bent á að þessir skattborgarar tapa ekki fé. Þvert á móti skilar bankinn hagnaði. Þá er mjög mikilvægt fyrir svæðið allt og íbúa þess að við höldum samkeppnishæfni okkar. Sérstaklega á ólgutímum eins og þeim sem við göngum nú í gegnum getur verið erfitt að viðhalda samkeppnishæfni og hagvexti en við teljum að starfsemi bankans ýti undir þessa þætti og það kemur okkur öllum vel.“

Hvað varðar áherslur bankans á umhverfismál viðurkennir Normann að þær ættu ekki endilega heima hjá hefðbundnum fjárfestingarbanka, þar sem áherslan er á að hámarka hagnað til hluthafa. „Umhverfismál eru hins vegar nátengd sjálfbærni og samkeppnishæfni. Ef við getum til dæmis fjármagnað verkefni sem leiðir til minni mengunar í sjónum í kringum Ísland þá er það vissulega umhverfisvænt verkefni, en það hefur einnig óneitanlega fjárhagslega góð áhrif á veiðar við Ísland og þar með á íslenskt efnahagslíf.“

Ítarlegt viðtal er við Normann í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.