Hækkun barnabóta nægir ekki sem mótvægisaðgerð við hækkun neðra þreps tekjuskattsins að mati Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartar framtíðar. Í samtali við Fréttablaðið í dag leggur hann til að persónuafsláttur verði hækkaður í staðinn.

Guðmundur segist telja það sanngjarnara, einkum fyrir barnlaust fólk og umgengnisforeldra. Ekkert sé nú gert til að mæta þessum hópi. Hækkun barnabóta nái ekki til þessa fólks, en persónuafsláttur gagnist öllum sem hafi úr litlu að spila.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknar, segir að vandinn við að hækka persónuafslátt sé að það gagnist líka þeim sem eru tekjuhæstir. Hann segist þó tilbúinn að skoða málið.