Hreinn Lofsson, stjórnarformaður Baugs, sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í kvöld að Baugur hafi ekki boðist til þess að hætta við að bjóða í bresku matvöruverslunarkeðjuna Somerfield.

Breskir fjölmiðlar hafa haft eftir heimildamönnum sínum að Baugur hafi boðist til þess að draga sig út úr hópi fjárfesta, sem sýnt hefur áhuga á að taka yfir Somerfield. Hreinn segir þessar fullyrðingar breskra fjölmiðla ekki réttar.

Ríkislögreglustjóri hefur ákært sex einstaklinga vegna meintra auðgunarbrota í Baugsmálinu. Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, Krístín Jóhannesdóttir, Jóhannes Jónsson, Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, og tveir endurskoðendur hafa verið ákærðir.

Heimildamaður Dow Jones fréttaskrifstofunnar í Bretlandi segir að Baugur hafi boðist til þess að draga sig út úr hópnum vegna ákærunnar og að því tilboði verði líklega tekið á mánudaginn. Hópurinn samanstendur af fjárfestingasjóðnum Apax, breska bankanum Barclays, fasteignajöfrinum Robert Tchenguiz og Baugi.

Áreiðanleikakönnun á Somerfield er lokið og er búist við að bindandi tilboð í félagið séu væntanleg á næstu dögum. Óbindandi tilboð hópsins hljóðar upp á 205 pens á hlut, eða um 1,1 milljarð punda. Einnig hefur fasteignafélagið London & Regional Properties, sem er í eigu Ian og Robert Livingstone, skilað inn óbindandi tilboði í Somerfield. Breska matvöruverslunarfyrirtækið Untited Co-op tilkynnti í síðustu viku að félagið myndi ekki senda inn bindandi tilboð í Somerfield. Somerfield mun birta tólf mánaða uppgjör á miðvikudaginn.