Baugur Group undirritar á morgun samning við íslenska tónlistarmenn sem felur í sér fjárfestingu fyrirtækisins í höfundarverkum nokkurra íslenskra tónlistarmanna. Ber sjóðurinn heitið Hugverkasjóður Íslands og nemur fjárfestingin um 160 milljónum króna, eftir því sem kemur fram í tilkynningu.

Tekjustofnar sjóðsins eru auk framlags Baugs, tímabundnar leigutekjur af höfundarrétti þeirra höfunda sem hlut eiga að máli. Markmið sjóðsins er að efla íslenskt tónlistarlíf og veita listamönnunum aukið svigrúm til að sköpunar nýrra höfundarverka.

Meðal þeirra höfunda sem eiga hlutdeild í Hugverkasjóði Íslands er Bubbi Morthens og kaupir Hugverkasjóður Íslands Hugverkasjóð Bubba Morthens af Sjóvá-Almennum sem fjárfesti í hugverkum Bubba fyrir hálfu öðru ári síðan.

Auk Bubba eru Gunnar Þórðarson, Stefán Hilmarsson, Guðmundur Jónsson, Jón Ólafsson, Valgeir Guðjónsson, Ragnhildur Gísladóttir, Egill Ólafsson, Eyþór Gunnarsson, Jakob Frímann Magnússon, Jón Ólafsson og Helgi Björnsson aðilar að samningnum.