Það er allt í steik, með óhæfum stjórnendum stórfyrirtækja og óhæfum eftirlitsstofnunum.

Þannig byrjar umfjöllun BBC af viðskiptaárinu 2008 en breska ríkisútvarpið segir þetta lýsandi fyrir nýliðna atburði í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Þá segir BBC niðurstöðu ársins vera mikinn samdrátt í helstu hagkerfum heims auk þess sem ríkisstjórnir hafi reynt að bjarga hrynjandi einkafyrirtækjum sem flestir voru búnir að afskrifa.

BBC spyr hvernig bankar, sem ættu að stunda hefðbundinn innlána- og útlánaviðskipti fyrir venjulegt fólk, þurfi milljarða af fé skattgreiðenda til að haldast á floti.

Svarið virðist vera að fyrirtæki hafi haldið að uppgangur hagkerfa myndi halda endalaust áfram og svo virðist sem helstu opinberu eftirlitsstofnunum hafi verið nokkuð sama.

„Svo virðist sem okkur hafi fundist það í lagi að bankarnir væru bæði viðskiptabankar og spilavíti þar sem spilavítið réði ferðinni,“ hefur BBC eftir hagfræðingnum Roger Bootle.

Á vef BBC er farið yfir helstu atburði viðskiptalífsins í Bandaríkjunum og Bretlandi á árinu sem nú er brátt á enda. Þar er rifjað upp hrun bandaríska fjárfestingabankans Bear Stearns mars og hrun Lehman Brothers í september sem talin eru hafa haft hvað mest áhrif á fjármálakrísuna.

Sjá nánar umfjöllun BBC.