Benedikt Orri Einarsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Meniga ehf. og tekur sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Benedikt er fæddur árið 1978 og er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði og B.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur frá árinu 2010 gegnt stöðu fjármálastjóra Carbon Recycling International. Áður starfaði Benedikt í Landsbankanum sem forstöðumaður endurskipulagningardeildar og í fyrirtækjaráðgjöf bankans. Benedikt hefur verið varamaður í stjórn Borgunar frá 2012.

Benedikt tekur við starfinu af Björgvini Inga Ólafssyni sem ráðinn hefur verið framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Íslandsbanka.

„Það eru fá fyrirtæki á Íslandi sem bjóða upp á jafn áhugaverða vaxtarmöguleika og Meniga. Meniga hefur þróað vöru og viðskiptamódel sem eru eftirsótt víða um heim. Ég er spenntur að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins og sókn inn á erlenda markaði,“ segir Benedikt Orri.