Klukkurnar í breska þinghúsinu munu ekki hringja á miðvikudag í virðingarskyni við Margaret Thatcher, sem borin verður til hinstu hvílu sama dag. Klukkurnar eru tvær, Big Ben í hinum nýskírða Elísabetarturni og aðalbjallan Great Bell.

John Bercow, forseti neðri deildar breska þingsins, greindi þingmönnum frá því í dag að þetta væri viðeigandi virðingarvottur við fyrrverandi forsætisráðherra landsins sem nú væri fallinn frá. Talið er að sami háttur hafi verið við hafður þegar Winston Churchill var borinn til grafar árið 1965, að því er fram kemur í umfjöllun á vef Guardian um málið.