Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri bílaumboðsins Brimborgar segir ótrúlega heimskulega hugmynd að banna nýskráningar bensín og dísilbíla. Jafnframt gagnrýnir hann mótsagnir í stefnu ríkisstjórnarinnar því þar er mælt fyrir um aukna notkun lífdísils og metangasbíla.

Bendir hann á að hugmynd ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að banna nýskráningar bíla af ákveðnum gerðum frá og með árinu 2030 komi einungis 18 árum eftir að stjórnvöld ákváðu að niðurgreiða dísilbíla. Þá hafi stjórnmálamenn trúað því að dísilbílar væri eina rétta tæknilausnin til að draga úr mengun eins og Egill orðar það í færslu á Facebook síðu sinni.

„Stjórnmálamennirnir hafa lítið lært og nú vilja þeir aftur velja tækni án þess að hafa hugmynd um hvað þeir eru að gera. Bann við nýskráningum bensín og dísilbíla er ótrúlega heimskuleg hugmynd því hún mun seinka samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir Egill og bendir á að frekar eigi að láta tæknilausnir berjast um hilli kaupanda á sama tíma og kröfur um eldsneytisnotkun og mengunarlosun séu hertar.

„Þá myndi bensín og dísiltæknin þróast áfram en ef hún gerir það ekki þá er hún sjálfdauð. En með þessari leið er engin tækni útilokuð og ef bensín og dísiltæknin þróast í rétta átt þá er hún ódýrasta lausnin og innleiðingin verður hraðari. Allir vinna. Sérstaklega neytendur.

Þessi bannnálgun er alveg sérstaklega áhugaverð í þessu tilviki því í þessu sama plaggi ríkisstjórnarinnar er lagt upp með að auka notkun á umhverfisvænum íblöndunarefnum í eldsneyti, bensín eða dísil t.d. lífdísil.

En bannið gerir það að verkum að ekki borgar sig að halda áfram að þróa íblöndunarefni því búið er að ákveða að banna bílana sem það myndu nota. Sama gildir um metangas en bílar sem brenna bensíni eru bílar sem geta notað metangas. Ef þeir verða bannaðir þá mun engin geta notað metangasið. Og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu voru að taka fyrstu skóflustunguna af nýrri gas- og jarðgerðarstöð til að auka gasframleiðslu. Hún kostar vel á fjórða milljarð. Örn, hvað segir þú um það?

Já, þeir láta ekki að sér hæða stjórnmálamennirnir.“