Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er markaðsmaður ársins. Þetta var samhljóða álit dómnefndar Ímark, samtaka markaðsfólks á Íslandi, sem veitir nú markaðsverðlaunin 2014 á Hilton Nordica.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, markaðsmaður ársins í fyrra og meðlimur í dómnefnd Ímark, tilkynnti þetta á verðlaununum sem nú standa yfir. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands veitti Birnu verðlaunin.

"Það er mikill heiður að fá þessa viðurkenningu," sagði Birna á fundinum rétt í þessu. Hún sagði mjög fáa í markaðsgeiranum hafa náð á toppinn í forstjórastóla þegar hún hóf störf. Það hafi aðeins breyst, en þó ekki mikið, og félag eins og Ímark ætti að skoða þau mál.  "Markaðsmál eru fyrirtækjum afar mikilvæg og verða alltaf mikilvægari," sagði Birna. Hún sagðist vilja deila verðlaununum með öllu starfsfólki Íslandsbanka.