Framundan eru sveitarstjórnarkosningar. Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína lökustu kosningu í sögunni, rúmlega 23% fylgi, í Alþingiskosningum í apríl í fyrra.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn hafa verið að ná vopnum sínum að undanförnu. Kannanir sýni það. Ekki sé þó hægt að treysta á þær og því verði flokksmenn að snúa bökum saman.

„Ég held að það sé fullt tilefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fara í kosningabaráttuna með sigurvissu og bjartsýni að vopni. Kannanir hafa verið að sýna okkur að flokkurinn er í sókn á flestum vígstöðum,“ segir Bjarni í viðtali við Viðskiptablaðið og nefndir sem dæmi að þátttaka í prófkjörum flokksins hafi verið góð víðast hvar og eins og venjulega langtum betri en hjá öðrum flokkum.

„Staðreyndin er síðan sú að Sjálfstæðisflokkurinn mun njóta þess að hafa stýrt málum af ábyrgð í fjölmörgum sveitarfélögum, t.d. í borginni. Þar hefur Hanna Birna staðið sig gríðarlega vel og náð að styrkja samstarf milli flokka. Þó eru alltaf átakalínur í stjórnmálum þar sem tekist er á um hvaða leiðir á að fara, en þannig á það líka að vera. Mér finnst það hvernig staðið hefur verið að málum í borginni, síðan Hanna Birna tók við stjórnartaumunum, sýna hvað hægt er að gera þrátt fyrir miklar efnahagsþrengingar.“

Bjarni segir að sveitarstjórnarkosningarnar séu alltaf sérstakar að því að leyti á landsvísu að það er oft mikil nálægð milli kjósenda og þeirra sem eru í framboði og það gefi þeim skemmtilegan blæ.

„Ég dreg hins vegar ekki dul á það að tímasetningin á útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hrærir upp í stjórnmálaumræðunni,“ segir Bjarni.

„Mér finnst sá stuðningur sem mælst hefur við framboð Besta flokksins í Reykjavík bera því dapurlegt vitni hvað mikið verk er enn óunnið í því fyrir stjórnmálaflokkana í landinu að öðlast að nýju traust kjósenda. Það er mikil óánægja með stjórnmálalífið um þessar mundir og fyrir þessu finna allir sem starfa í stjórnmálum. Það hefur því miður ekki náðst yfirvegað talsamband á milli kjörinna fulltrúa og kjósenda í landinu eftir hrunið. En það er tækifæri í þessum sveitarstjórnarkosningum og við verðum að halda áfram.“

_____________________________

Nánar er rætt við Bjarna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .