„Til að komast í gegnum þessa erfiðu tíma höfum við þurft að styðja okkur við hækjur. Þar má helstar nefna annars vegar efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrisjóðsins sem fjármagna þurfti með aðstoð vinaþjóða - og hins vegar höftin. Nú höfum við greitt upp öll neyðarlánin sem okkur voru veitt og við hyggjumst sleppa hinni hækjunni, - höftunum - síðar á árinu,“ sagði Bjarni Benediktsson á ársfundi Seðlabanka Íslands sem stendur nú yfir.

Rifjaði Bjarni upp að fyrir ári síðan hafi hann sótt sinn fyrsta fund sem fjármálaráðherra.

„Fyrir ári greindi ég fundargestum frá því að stutt væri í að stórar ákvarðanir yrðu teknar sem myndu marka leiðina fram á við að losun hafta. Framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta var þá að leggja lokahönd á tillögur til stýrinefndar um aðgerðaáætlun sem ætlað var að gera okkur kleift að losa um höft án þess að stefna efnahagsstöðugleika Íslands í hættu.

Ekkert ríki hafði, fyrr eða síðar svo vitað sé, þurft að glíma við viðlíka greiðslujafnaðarvanda og Ísland stóð frammi fyrir. Landið hvíldi undir snjóhengju fjármagns sem leitaði útgöngu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mat að næmi 70% af landsframleiðslu.

Það var ljóst að þessi fordæmalausa staða kallaði á fordæmalausar aðgerðir.

Það sem ég gat hins vegar ekki upplýst gesti ársfundarins um á þessum tíma var að tveimur dögum áður hafði aðgerðaáætlun stjórnvalda verið hrundið í framkvæmd.

Framkvæmdahópurinn og erlendir ráðgjafar stjórnvalda höfðu þá átt fundi með fulltrúum helstu kröfuhafa Kaupþings, Glitnis og LBI þar sem þeim voru í fyrsta skipti kynntar fyrirætlanir um stöðugleikaskatt á eignir slitabúanna. Af markaðsástæðum ríkti trúnaður um samskiptin og innihald þeirra, en þarna var um algjör kaflaskil að ræða í samskiptum kröfuhafa og stjórnvalda.“

Sagði hann að inngrip stjórnvalda, sem fólst í lagasetningu í júní í fyrra um stöðugleikaskatt hafi verið nauðsyn. Án lagasetningar og afarkosta væru líkur á því að enn væri verið að bíða eftir hugmyndum slitabúanna að nauðasamningum.

„Réttir hvatar og tímafrestir tryggðu að stærsta snjóhengjan, 30% af landsframleiðslu, var leyst á um 10 mánuðum eftir að aðgerðir stjórnvalda hófust. Þar sem ég stóð hér fyrir ári síðan hafði ég aðeins veika von um að okkur tækist að nýta tímann til áramóta til að ganga frá málefnum allra fallinna fjármálafyrirtækja, en það tókst.

Frágangur allra fallinna fjármálafyrirtækja er kominn í farveg með samþykktum nauðasamningum. Útistandandi lagaleg ágreiningsmál eru engin. “