Landsbankinn ætti að standa undir hóflegum arðgreiðslum án þess að finna neitt fyrir því, að mati Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Bankinn greiddi út tæplega 10 milljarða króna arð um mánaðamótin. Ríkið tók við nær öllum arðinum enda eigandi að 98% hlutafjár Landsbankans.

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri sagði í tengslum við útgáfu ritsins Fjármálastöðugleiki 2013 í vikunni, að mikilvægt sé að arðgreiðslum Landsbankans verði stillt í hóf. Það fer ekki alveg saman við nýtt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem Bjarni mælti fyrir í síðustu viku. Þar er gert ráð fyrir arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum upp á 8,1 milljarð króna. Meginuppistaðan er arður frá Landsbankanum.

Arnór sagði jafnframt stóru bankana þrjá mega búast við því að eiginfjárkröfur þeirra allra verði auknar frekar í takt við þróun reglna á erlendum vettvangi og til bankarnir séu undirbúnir fyrir afnám hafta.

Ætti ekki að finna fyrir arðgreiðslum

Bjarni segir í samtali við VB.is arðgreiðsluna ekki ganga gegn orðum Arnórs.

„Þessar arðgreiðslur í fjárlagafrumvarpinu byggja á mati frá Bankasýslunni," segir hann og bendir á að í tilfelli Landsbankans sé hann með vel ríflega 220 milljarða króna í eigið fé. Hann ætti því að standa undir hóflegum arðgreiðslum án þess að finna neitt fyrir því.

Fjallað er ítarlega um rit Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .