Bjartsýni forstjóra fyrirtækja víðs vegar um heim hefur farið dalandi undanfarin tvö ár ef marka má könnun sem PwC Global gerði meðal ríflega 1.300 forstjóra um heim allan. Aðeins 36% þeirra eru bjartsýnir á að fyrirtækið muni ná að auka tekjur sínar á næstu tólf mánuðum. Árið 2012 var þetta hlutfall í 40% og árið 2011 var það 48%. Bjartsýnin var minnst árið 2009, eins og við var að búast, en þá töldu aðeins 21% forstjóra líkur á því að tekjur myndu aukast á næstu tólf mánuðum.

Þegar kemur að því hvaða þættir það eru sem forstjórarnir hafa mestar áhyggjur af er áhugavert að í efsta sæti trónir félagsleg ólga í heimalandinu. Alls hafa 75% forstjóranna segja að slík ólga myndi hafa mest neikvæð áhrif á viðkomandi fyrirtæki. Aðstöðumunur milli mismunandi heimshluta kemur svo fram í því þegar svör við einstökum spurningum eru greind eftir því hvaðan forstjórarnir koma. Þannig hafa 88% forstjóra í Afríkuríkjum áhyggjur af óvissu og sveiflum í hagvexti, en aðeins 56% forstjóra í Mið-Austurlöndum deila þessum áhyggjum. Um 89% forstjóa í Norður-Ameríku hafa áhyggjur af viðbrögðum ríkisins við fjárlagahalla og skuldastöðu ríkisins, en minnstar áhyggjur af þessum lið eru meðal forstjóra í Mið- og Suður-Ameríku, eða um 54%.

Um 82% forstjóra í Afríku hafa áhyggjur af því hve erfitt er að finna starfsfólk með nauðsynlega menntun og þjálfun, en í Vestur-Evrópu hafa aðeins 45% forstjóra sömu áhyggjur. Þá ætti ekki að koma á óvart að forstjórar í Mið-Austurlöndum hafa minnstar áhyggjur af orkukostnaði, eða um 31%, á meðan áhyggjur af þessum lið eru mestar í Afríku og þar hafa 68% forstjóra áhyggjur af orkukostnaði.