Hluteign er nýtt fjártæknifélag sem kemur til með að bjóða landsmönnum upp á að fjárfesta í fasteignum óháð eiginfjárstöðu og lánstrausti, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Félagið segist vera með þessu að auka á aðgengi að fasteignamarkaðnum með því að bjóða til sölu húsnæði þar sem hægt er að fjárfesta í stökum fermetrum.

Bundnar eru vonir við að fyrstu eignir fari í sölu í byrjun næsta árs en skráning er þegar hafin á biðlista sem veitir skráðum aðilum 48 klukkustunda forkaupsrétti við opnun.

„Markmið félagsins er að auka aðgengi almennings að arðbærri fjárfestingu,“ segir í tilkynningunni. „Með innkomu Hluteignar gefst fleirum kostur á að stíga inn á fasteignamarkaðinn, sem um langt skeið hefur talist til arðbærustu og öruggustu fjárfestingakosta.“

Sjá einnig: Fyrsta vara Net3 lítur dagsins ljós

Að baki Hluteignar standa fjártæknifélagið Net3 og hönnunarstofan Jökulá og eru skrifstofur fyrirtækjanna staðsettar í Borgartúni 27.

„Það eru fáir fjárfestingarkostir sem hafa reynst landsmönnum jafn gjöfulir og fasteignakaup. Á höfuðborgarsvæðinu hefur íbúðarverð hækkað að nafnvirði um rúmlega 850% á síðustu 25 árum,“ segir Einar Gústafsson, einn stjórnarmanna Hluteignar. Hann hefur starfað í fjármálatækni í yfir 20 ár m.a. sem forstöðumaður vefþróunar hjá Íslandsbanka og framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Meniga.

„Við vitum það hins vegar að fjölmargar hindranir geta staðið í vegi fyrir fólki sem vill stíga inn á markaðinn og heftir þannig aðgengi fjölmargra að þessari arðbæru fjárfestingu. Kaupendur þurfa, oftar en ekki að eiga talsvert eigið fé til þess eins að geta keypt sína fyrstu eign og það sést vel á hvernig landslagið hefur þróast, að stór hópur fólks býr ekki við þann munað í dag.“

Hluteign hyggst bjóða einstaklingum að fjárfesta fyrir frá 10.000 krónum og allt að 10 milljónum, og eignast þannig hlut í fasteign. Hluteigendur geti þannig fengið ávöxtun af hækkun fasteignaverðs og hluta af leigutekjum.

„Fasteignaverð hefur að meðaltali hækkað um rúmlega 10% á ári síðasta áratuginn samkvæmt Hagstofu Íslands sem er töluvert betri ávöxtun en bankarnir hafa boðið á sparnaðarreikningum á sama tímabili. Með Hluteign gefst almenningi kostur á að tengja sparnað sinn við þróun fasteignaverðs og fá samhliða góða ávöxtun á sparifé sitt.”