Björgólfur Thor Björgólfsson, einn af helstu hluthöfum gamla Landsbankans, þarf ekki að bera vitni í máli sem Vilhjálmur Bjarnason, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, höfðaði gegn honum, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Vilhjálmur fór persónulega gegn Björgólfi en með hóp manna á bak við sig sem vilja kanna hvort hægt sé að krefja Björgólf Thor um skaðabætur vegna hugsanlegrar refsiverðrar háttsemi.

Dómurinn taldi hins vegar ekki hægt að nota vitnamál til að afla gagna sem geti varpað sök viðkomandi aðila. Þegar hefur verið ákveðið að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar. Líklegt þykir að dómur falli í málinu eftir um mánuð.

Málið í dag er liður í hugsanlegri hópmálssókn hluthafa gamla Landsbankans á hendur fyrri eigendum.

Með lífeyrissjóði á bak við sig

„Tilgangurinn er ekki einn sá að fá menn til að bera vitni. Tilgangurinn er líka sá að leiða í ljós ákveðnar meinsemdir sem voru þarna og hugsanlega yfirtökuskyldu Björgólfs Thors á bankanum. Við teljum okkur hafa það miklar upplýsingar um eignarhald hans á bankanum,“ segir Vilhjálmur í samtali við vb.is. Hópurinn samanstendur af nokkrum tugum hluthafa  gamla Landsbankans, þar stærstir eru lífeyrissjóðir, að sögn Vilhjálms.