Björgólfur Thor Björgólfsson segir að sorglegt sé það fyrsta sem honum hafi dottið í hug þegar hann heyrði af því að rannsókn á einkavæðingu bankanna hafi dagað uppi í þinglok. Þetta kemur fram á heimasíðu Björgólfs.

„Það er með ólíkindum að á Alþingi Íslendinga skyldi hafa dagað uppi tillaga um opinbera rannsókn á einkavæðingu bankanna. Stjórnmálamenn hafa í áratug þjarkað fram og til baka um hvernig að þessu var staðið og hafa því fylgt ásakanir um spillingu og hafa fjölmargir verið dregnir ofan í það svað.  Þegar loks á að upplýsa hvað raunverulega gerðist þá fellur stjórnmálamönnum allur ketill í eld. Nú er ástæðan fyrir því að ekki  má upplýsa að sumir vilja líka upplýsa um skyld mál frá þessu kjörtímabili, á meðan aðrir eru því algjörlega mótfallnir. Þá er auðveldasta lausnin sú að sameinast um að gera ekki neitt og halda áfram að ásaka mann og annan um sviksemi og spillingu án þess að allar upplýsingar liggi fyrir,“ segir Björgólfur meðal annars á síðu sinni.

Björgólfur segist hafa lagt sig fram um að koma á framfæri opinberlega gögnum um einkavæðingu Landsbankans og lýsingum á atburðum eins og þeir blöstu við honum. Hann segir enn fremur að vísir að rannsókn hafi farið fram á vegum rannsóknarnefndar Alþingis en að hún hafi ekki fjallað um alla þætti málsins og því verið ófullnægjandi.

Björgólfur segir að þrátt fyrir að hafa verið þáttakandi í einkavæðingu bankanna þá þekki hann aðeins afmarkaðan þátt málsins sem snýr að honum sem kaupanda. Hann hafi ekki vitað hvað réði ferðinni hjá ríkinu sem seljanda. Ekki viti hann hvernig var í pottinn búið hjá kaupendum Búnaðarbankans né hvernig samskiptum þeirra við stjórnvöld var háttað. Björgólfur segir einnig að aðkoma Kaupþings að málinu sé honum hulin ráðgáta. Blekið hafi ekki verið þornað á kaupsamningi S-hópsins við ríkið áður en Kaupþing eignaðist Búnaðarbankann.