Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi viðskiptaráðherra hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Björgvin í dag en Kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi samþykkti að halda netprófkjör í kjördæminu með tveimur efstu sætum bundnum sitt hvoru kyninu. Prófkjörið fer fram þann 7. mars næstkomandi.

„Fyrir rúmlega tveimur árum fékk ég afgerandi stuðning í 1. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í opnu prófkjöri,“ segir Björgvin í tilkynningunni.

„Það er áríðandi að bæði fólk og flokkar sæki sér endurnýjað umboð til kjósenda. Því fagna ég því sérstaklega að Samfylkingin skuli velja þá nýstárlegu og lýðræðislegu leið að gefa öllum kjósendum í Suðurkjördæmi sem þess óska kost á að velja flokknum framboðslista þar sem tryggt er að bæði kynin eiga fulltrúa í efstu sætum.“