Bílaumboðið BL selur bílalán sín áfram þar sem fyrirtækið hefur ekki leyfi til að sinna lánastarfsemi. Erna Gísladóttir, forstjóri BL, vill í samtali við Morgunblaðið ekki upplýsa hvort selja þarf lánin með miklum afslætti þar sem þau bera ekki vexti eða hver áhrifin verða á framlegð af bílasölu.

Umboðið auglýsti í fjölmiðlum í gær að það bjóði allt að 40% bílalán á nýjum bílum til þriggja ára án vaxta.

Erna segir í samtali við Morgunblaðið að BL hafi ekki hækkað verð á bílum til að vega upp á móti góðum lánakjörum. Hún segir fyrirkomulag á borð við það sem BL bjóði þekkjast erlendis. Fyrirtækið sé að fjölga kostum á markaðnum og svara óskum neytenda.

Erna telur jafnframt líklegt að flestir þeirra sem kaupi sér ódýrari bíla sem kosti á bilinu 3-5 milljónir króna muni nota sér þetta lánafyrirkomulag.