Bláa lónið hagnaðist um 13,5 milljónir evra árið 2022, eða sem nemur 2 milljörðum króna, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Til samanburðar tapaði félagið 4,8 milljónum evra árið 2021. Bláa lónið hyggst ekki greiða út arð vegna síðasta árs.

Covid-faraldurinn hafði gríðarleg áhrif á rekstur Bláa lónsins og tekjutap árin 2020 og 2021 var verulegt. Rekstrartekjur félagsins í fyrra námu og 111,6 milljónum evra, eða um 16,7 milljörðum króna á gengi dagsins, sem er um 132% aukning frá árinu 2021.

„Áætlanir félagsins gera því ráð fyrir áframhaldandi bata í rekstri félagsins á árinu 2023 sem koma meðal annars fram í auknum tekjum, bættri afkomu og að fjárhagsstaða félagsins verði áfram sterk,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi Bláa lónsins.

Rekstrargjöld jukust um 86% á milli ára og námu 85,5 milljónum evra eða um 12,8 milljörðum króna. Stöðugildi félagsins voru að meðaltali 589 á árinu 2022 samanborið við 396 árið 2021.

Eignir Bláa lónsins voru bókfærðar á 173,6 milljónir evra í árslok 2022, eða sem nemur tæplega 26 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Eigið fé var um 74,3 milljónir evra eða um 11,1 milljarður króna. Eiginfjárhlutfallið var 43%.

Horfa til skráningar í haust

Tilkynnt var í nóvember síðastliðnum um að Bláa lónið hefði ákveðið að hefja undirbúning að skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar.

Í tilkynningu sem Bláa lónið sendi frá sér í dag segir Grímur Sæmundsen, forstjóri og stofnandi félagsins, að endanleg ákvörðun um skráningu verði háð framvindu undirbúningsvinnu og eftir því sem markaðsaðstæður leyfa. Að svo stöddu sé verið að horfa til haustsins.

Stærstu hluthafar Bláa lónsins í árslok 2022

Hluthafi Eignarhlutur
Hvatning hf. 39,6%
Blávarmi slhf. 36,2%
Keila ehf. 11,1%
Stoðir hf. 7,3%
Bogmaðurinn ehf. 2,4%
M4 ehf. 1,1%