*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 29. október 2020 18:16

Bláa lónið segir upp 26 til viðbótar

Rúmlega 100 starfsmenn enn eftir hjá fyrirtækinu eftir nýjustu uppsagnirnar. Einnig tllkynnt um 70 í hópuppsögnum.

Ritstjórn
Grímur Sæmundsen er forstjóri Bláa lónsins.
Haraldur Guðjónsson

Nú eru rúmlega 100 starfsmenn eftir hjá Bláa lóninu í kjölfar þess að 26 starfsmenn til viðbótar fá uppsagnarbréf þessi mánaðamótin að því er Morgunblaðið greinir frá. Auk þess taka tvær hópuppsagnir með ríflega 70 manns samtals gildi um mánaðamótin að því er RÚV greinir frá, það er annars vegar 35 manns og hins vegar 36 manns.

Um er að ræða fyrirtæki í vetingageiranum annars vegar og verslun og þjónustu hins vegar að því er haft er eftir Unni Sverrisdóttur forstjóra Vinnumálastofnunar sem býst við að fá fleiri tilkynningar fyrir mánaðamótin.

Yfir 500 sagt upp í mars og maí

Bláa lónið lokaði í upphafi faraldursins í marslok fram á sumar, og sagði upp 126 manns fyrir lok mánaðarins, ásamt því að setja yfir 400 starfsmenn á hlutabætur, en síðan bættust 403 uppsagnir í maílok vegna óvissunnar í ferðaþjónustu.

Nú segir Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins að lónið verði lokað áfram inn í nóvember og á virkum dögum í desember en það er búið að vera lokað frá 8. október síðastliðnum eftir að ný bylgja kórónuveirufaraldursins skall yfir landið.

Hann segir að lokunin taki til allrar starfsemi félagsins að Svartsengi, en þó verði verslun fyrirtækisins á Laugavegi áfram opin. Hann segir að reynt hafi verið að halda í ráðningarsamband við starfsfólkið sem missir nú vinnuna.

„Það er ein­læg von mín að við get­um end­urráðið þá áður en upp­sagn­ar­frest­ur þeirra renn­ur út og helst fleiri þegar að birta tek­ur á ný," segir Grímur. „Eftir þessar uppsagnir verða þó rúmlega 100 manns áfram að störfum hjá Bláa Lóninu hf."

Í síðasta mánuði misstu 324 manns vinnuna í níu hópuppsögnum, þar af átta í ferðaþjónustu en ein í mannvirkjagerð, en ágúst og júlí voru fjórar hópuppsagnir hvorn mánuð, þar sem 284 misstu vinnuna í ágúst og 381 í júlí.