Íslensku bankarnir, sem stýrt er af kröfuhöfum, stríða nú við aðra hrinu vandræða í kjölfar dóma Hæstaréttar. Á meðan þráast ríkisstjórn og lífeyrissjóðir við að koma til hjálpar með eiginfjárframlagi. Þetta hefur Bloomberg fréttaveitan eftir viðmælendum sínum.

Í fréttaskýringu Bloomberg er sagt lánadrottnar geti tapað allt að 4,3 milljörðum dollara, sem jafngildir þriðjungi landsframleiðslu Íslands. Mögulegt tap er tilkomið vegna gengisdóms Hæstaréttar, sem hefur þær afleiðingar að eignastaða fjármálastofnanna versnar og fer niður fyrir leyfileg mörk hjá einhverjum þeirra, að sögn Gunnars Anderssen forstjóra FME.

900 milljarðar í erlendum lánum

Í frétt Bloomberg er sagt frá hvernig bankarnir tóku erlend lán á lágum vöxtum og lánuðu síðan áfram til landsmanna í formi myntkörfulána. Nú þurfa lánadrottnar að taka á sig höggið, en íslenskir bankar eiga allt að 900 milljarða króna af erlendrum lánum. Gætu þeir þurft að afskrifa lán sín um 40 til 60%.

Verg skuld ríkisins mun ná sínu hæsta gildi í ár, um 110% af vergri landsframleiðslu, og er vitnað í orð Gylfa Magnússon sem hefur sagt að ríkið muni líklegast ekki hlaupa undir bagga vegna slæmrar stöðu bankanna. Skuldir séu of miklar. Þeir sem líklegri eru til að koma til hjálpar eru erlendri fjárfestar og íslenskir lífeyrissjóðir.

Fjárfestingar erlendra aðila ólíklegar

Að mati nokkra viðmælenda Bloomberg fréttaveitunar er afar ólíklegt að erlendir fjárfestar hafi áhuga á að fjárfesta hér á landi, sér í lagi vegna gjaldeyrishafta. Þeir einu sem hafi fjármagn hérlendis í dag eru lífeyrissjóðirnir, en takmörk séu fyrir hversu miklum fjármunum þeir geta lánað ríkinu.