Í Bandaríkjunum hafa 25 bankar fallið í valinn á þessu ári og yfirvöld óttast að 200 til viðbótar séu í hættu. Þessir 200 fá nú aðstoð úr 700 milljarða dala hjálparsjóði sem bandaríska þingið samþykkti að setja á stofn í september, að sögn WSJ.

Nú kvarta bankar yfir því að fá misvísandi skilaboð frá yfirvöldum. Annars vegar sé þeim sagt að efla eigið fé til að geta varist tapi, hins vegar eigi þeir að lána meira til að efla hagkerfið. Sheila Bair, formaður innistæðutryggingasjóðsins í Bandaríkjunum svarar þessari gagnrýni þannig í WSJ að verið sé að reyna að finna rétta jafnvægið í þessu og að hún telji að það hafi tekist.

Hótað að veita ekki meiru úr hjálparsjóðnum nema útlán aukist

Í hjálparsjóðnum eru nú eftir 350 milljarðar dala af þeim 700 sem upphaflega fóru í hann. Þingmenn hafa hótað því að halda eftir þessum 350 milljörðum þar til sannanir fást fyrir því að bankar noti þetta nýja eigið fé til útlána. Demókratar á þingi hafa viljað skylda banka til að lána að minnsta kosti hluta af fjármagninu, að sögn WSJ.

Þetta mun hins vegar vera hægara um að tala en í að komast því að á sama tíma, segja bankamenn, eru yfirvöld í raun að hækka kröfur um eiginfjárhlutfall um tvö prósentustig. Opinberar kröfur um þátt A eigin fjárins séu til að mynda 6%, en í raun séu þær nú 8%. Með sama hætti séu nú í raun gerðar kröfur um 12% kjarna-eigið fé, þrátt fyrir að lágmarkskrafan sé opinberlega 10%.