Þeim bandarísku bönkum sem þegið hafa neyðarlán frá yfirvöldum vestanhafs verður leyft að endurgreiða lánin hraðar en upphaflega var gert ráð fyrir  - en aðeins ef það telst þjóðhagslega hagkvæmt og þeir standast álagspróf bandaríska fjármálaráðuneytisins.

Þetta kemur fram í Financial Times (FT) en blaðið hefur þetta eftir ónafngreindum háttsettum embættismanni sem þekkir til málsins.

Í frétt FT kemur fram að þeir bankar, sem sýna fram á góða lausafjárstöðu og möguleikann á endurfjármögnun, ættu að geta grein neyðarlán sín hraðar niður. Hins vegar verður tekið tillit til fleiri þátta en það kann, samkvæmt skýrslu sem hefur verið unnin fyrir bandaríska fjármálaráðuneytið, að vera þjóðhagslega óhagkvæmt ef þeir greiða lánin of hratt niður.

Heimildarmaður FT segir að uppfylla þurfi þrjú skilyrði. Í fyrsta lagi þurfi hagkerfið að vera stöðugt (án þess að það sé útlistað frekar í frétt FT), í öðru lagi þarf að vera öruggt að bankarnir munu ekki þurfa á slíku láni að halda aftur og í raun gott betur því í þriðja lagi þurfa bankarnir að hafa eiginleika til að styðja við bakið á atvinnulífinu.

„Við viljum frekar að bankarnir láni fjármagnið áfram í stað þess að greiða það strax til baka,“ segir heimildarmaður FT.

Stórir bankar á borð við Goldman Sachs og JP Morgan hafa lýst því yfir að bankarnir geti greitt lán sín hraðar niður en áður var gert ráð fyrir. Yfirvöld hafa þó sett þeim þröskuldinn fyrir dyrnar og vilja að bankarnir nýti fjármagnið betur til að koma hagkerfinu í gang á ný.

„Bankarnir kunna þetta betur en við,“ segir heimildarmaður FT.

„Þeir stunda lánastarfssemi og það er rétt að þeir taki ákvarðanir um hvernig skuli ráðstafa því. Vissulega taka þeir áhættu með því að lána fjármagnið en það er lítill tilgangur í því að reka þá með þeim formerkjum að endurgreiðsla ríkislánsins sé forgangsatriði.“