Arion banki og fjárfestingafélagið Apartnor breyttu 900 milljóna víkjandi láni fasteignafélagsins Austurhafnar í hlutafé í júní síðastliðnum. Austurhöfn vinnur að því að reisa íbúðir og verslunarhúsnæði við hlið Hörpu. Húsnæðið verður alls um 8.000 fermetrar en af því keypti fasteignafélagið Reginn 2.700 fermetra verslunar – og skrifstofuhúsnæði.

Arion banki á tæplega 20% hlut í verkefninu auk þess að vera aðallánveitandi þess. Apartnor á tæplega 80% hlut en félagið er að mestu í eigu fjárfestanna Hreggviðs Jónssonar, Eggerts Þórs Dagbjartssonar og tengdra aðila. Verkefnið er í umsjón Íslenskar fasteignar ehf.

Arion banki, Hreggviður og Eggert eru jafnframt meðal fjárfesta í byggingu fimm stjörnu hótelsins sem nú rís við hlið Hörpu sem verður undir merkjum Marriott Edition. Arion banki er einnig aðallánveitandi hótelframkvæmdanna. Stefnt er að því að hótelið opni síðar á þessu ári.

Íbúðirnar við Austurhöfn eru 71 talsins. Stefnt var að því að þær færu í sölu í byrjun árs 2019 og að Reginn fengi húsnæðið afhent sumarið 2019. Framkvæmdirnar hafa hins vegar tekið lengri tíma en til stóð en COVID-19 heimsfaraldurinn hefur valdið sett strik í reikninginn. Meðal annars hefur afhending á innréttingum frá Ítalíu seinkað vegna faraldursins. Nú er stefnt er að því að ljúka framkvæmdunum fyrir árslok en íbúðirnar fara í sölu í lok ágúst, samkvæmt Sveini Björnssyni, framkvæmdastjóra Íslenskra fasteigna.

Íbúðirnar við Austurhöfn eiga að vera einhverjar þær vönduðustu sem byggðar hafa verið hér á landi. „Það er búið að hugsa fyrir öllu í þessu húsnæði, hvort sem það er að utan eða innan,“ segir Sveinn. „Við erum að setja markið hátt hvað frágang og gæði varðar að innan sem utan.“

Nær helmingur íbúðanna verður 170-360 fermetrar en þær minnstu ríflega 70 fermetrar. Í hluta íbúðanna er innangengt í íbúðina úr lyftu. Þá verður vínkæla, snjallheimilskerfi, gólfhiti, vandaðar innréttingar meðal þess sem finna má í íbúðunum.  Bílakjallari verður undir húsinu og stæði fyrir allar íbúðir.

Eggert Dagbjartsson sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst 2019 að stefnt væri að því að fermetraverð ódýrustu íbúðanna yrði um 800 þúsund krónur á fermetrar en í sumum þeirra færi verðir yfir milljón krónur á fermetra. Verðin hafa lítið breyst en eru enn til skoðunar, að sögn Sveins. Hann segir að aðstandendur verkefnisins fylgist með þróun fasteignaverðs á markaðnum en hins vegar verði að hafa í huga að hafa engar sambærilegar íbúðir hafa verið byggðar á Íslandi til þessa.

Í árslok 2018 námu eignir Austurhafnar metnar á 6,8 milljarða króna, en þar af var húsnæðið metið á 6,4 milljarða króna. Skuldir námu 5,6 milljörðum króna en þar af var lán frá Arion banka upp á milljarða króna 4,7 milljarða króna. Þá nam eigið fé 1,2 milljörðum króna. Það ár var hlutafé félagsins aukið um 400 milljónir króna. Þá hafði Reginn þegar greitt hluta kaupverðsins fyrir 2.700 fermetra verslunar og skrifstofuhúsnæði á svæðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .